Ferill 532. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 532 . mál.


831. Frumvarp til laga


um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)


1. gr.

    Tilgangur laga þessara er að stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun heimilistækja og annars er varðar rekstur þeirra.
    

2. gr.

    Lög þessi taka til merkinga og staðlaðra upplýsinga um heimilistæki og tæki eða búnað til hitunar húsnæðis og upphitunar á vatni sem kveðið er á um í reglugerð.
    Lögin taka ekki til notaðra tækja og búnaðar.
    

3. gr.

    Framleiðandi, fulltrúi hans eða sá er markaðssetur vöru, hér eftir nefndur birgðasali, skal láta neytendum í té upplýsingar varðandi orkunotkun og orkunýtni tækja og búnaðar sem seld eru, leigð, boðin til sölu eða leigu. Upplýsingar þessar skulu vera á íslensku og þær ber að finna á merkimiðum er tengjast tækjum og á sérstökum upplýsingablöðum. Upplýsingablað skal fylgja öllum kynningarritum fyrir vörurnar.
    Birgðasala og seljanda er skylt að vekja athygli neytenda á fyrrgreindum upplýsingum.

4. gr.

    Birgðasali skal taka saman tæknilegar upplýsingar sem leggja má til grundvallar við mat á upplýsingum þeim sem greint er frá á merkingum og upplýsingablaði.
    Slíkar upplýsingar skulu hafa að geyma:
    Almenna vörulýsingu.
    Niðurstöður útreikninga varðandi hönnun ef við á.
    Prófunarskýrslur þegar þær eru til, þar með taldar skýrslur um prófanir sem tilnefndir aðilar hafa framkvæmt í samræmi við aðra löggjöf.
    Ofangreindar upplýsingar um svipaðar gerðir tækja ef tölulegar niðurstöður miðast við þær.
    Birgðasali skal hafa þessar upplýsingar til reiðu vegna skoðana í fimm ár frá því tæki var síðast framleitt.

5. gr.

    Birgðasali ber ábyrgð á því að upplýsingar á merkimiðum og upplýsingablöðum, sem hann lætur í té, séu réttar.
    Óheimilar eru merkingar sem samrýmast ekki ákvæðum þessara laga og reglna sem settar eru á grundvelli þeirra og geta verið villandi eða misvísandi.
    

6. gr.

    Málefni samkvæmt lögum þessum falla undir iðnaðarráðherra. Ráðherra getur falið öðrum aðilum að annast eftirlit með því að ákvæðum laga þessara og reglugerða sé fylgt. Þeir aðilar eru hér eftir nefndir eftirlitsaðilar.
    

7. gr.

    Ef ástæða er til að ætla að upplýsingar, sem veittar hafa verið, séu rangar er eftirlitsaðilum heimilt að:
    Krefja birgðasala eða seljendur um upplýsingar, sem nauðsynlegar eru við eftirlit, innan tilskilins frests.
    Krefjast þess að lagt verði fram til skoðunar eintak vöru og umbúða innan tilskilins frests. Eftirlitsaðilum er heimilt að fela öðrum sem þeir tilnefna skoðunina.
    Leita tæknilegrar aðstoðar hjá aðilum með sérþekkingu.
    

8. gr.

    Iðnaðarráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara. Ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að birgðasali skuli bera kostnað af eftirliti og skoðun og setja sérstaka gjaldskrá er það varðar.
    Nánari reglur um kæru ákvarðana eftirlitsaðila er heimilt að kveða á um í reglugerð.
    

9. gr.

    Brot á lögum þessum og reglugerðum sem settar verða samkvæmt þeim varða sektum sem renna í ríkissjóð. Um meðferð þeirra fer að hætti opinberra mála.
    

10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1994.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Tilgangur þessa frumvarps er að tryggja neytendum greiðan aðgang að nákvæmum og samræmdum upplýsingum um orkunotkun heimilistækja o.fl. sem og öðru er varðar rekstur þessara tækja og stuðla að því að neytendur leitist við að nota orku með hagkvæmum hætti. Með því að setja samræmdar reglur í mörgum löndum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl. má ætla að framleiðendur muni leitast við að setja á markaðinn tæki með minni orkunotkun. Rétt er að taka fram að með lögunum verður ekki bannað að framleiða, flytja inn eða út, selja eða leigja tæki eða búnað með með vísun til lélegrar orkunýtni.
    Við samningu frumvarpsins var höfð til hliðsjónar tilskipun ráðs Evrópubandalagsins frá 22. september 1992 (92/75/EBE) um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á heimilistækjum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum sem vísað er til í IV. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum hefur verið breytt.
    Við samningu þess voru dönsk lög um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun, nr. 224 frá 28. maí 1982, með áorðnum breytingum, einnig höfð til hliðsjónar.
    Hér á landi hafa ekki verið í gildi lög um þetta efni. Í kafla um orkusparnað í lögum um jöfnun og lækkun húshitunarkostnaðar, nr. 53/1980, er þó fjallað um tengt efni varðandi húshitun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er að finna almenna lýsingu á tilgangi og markmiði laganna. Markmiðið er að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum til þess að stuðla að því að orka verði notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti. Nákvæmar og samræmdar upplýsingar um orkunotkun munu auðvelda neytendum að bera saman rekstrarkostnað tækjanna. Varðandi aðra þætti er varða rekstur tækjanna er meðal annars átt við vatn og kemísk efni sem þarf vegna notkunar þeirra.
    

Um 2. gr.

    Í greininni er sagt að lögin taki til heimilistækja, tækja og búnaðar sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Nauðsynlegt er að tilgreina nánar í reglugerð til hvaða tækja lögin taka á hverjum tíma þar sem reglugerðir hér verða settar í samræmi við tilskipanir Evrópubandalagsins og mun hver og ein þeirra aðeins ná til fárra tegunda tækja. Ljóst er að fyrsta reglugerðin mun taka til kæliskápa, frysta og sambyggðra kæli- og frystiskápa. Af því leiðir að lögin munu aðeins ná til þeirra tækja í byrjun en í kjölfarið munu koma reglugerðir um þvottavélar, uppþvottavélar, ljósabúnað, loftræstibúnað, ofna og vatnshitara. Síðar kunna einnig að verða settar reglur um önnur heimilistæki, svo sem eldavélar, bökunarofna og vatnsrúm.
    Í 2. mgr. er kveðið sérstaklega á um að lögin nái ekki til notaðra tækja.
    

Um 3. gr.

    Í grein þessari er rík upplýsingaskylda lögð á birgðasala. Skyldan tekur til hvers konar kaupa og leigu, þar með talin kaup með afborgunarskilmálum eða kaupleigu og einnig án tillits til þess hvernig staðið er að kaupum eða leigu, t.d. þótt vara sé keypt samkvæmt vörulista. Ekki er heldur gerður greinarmunur á kaupum til heimilisnota eða annars konar nota.
    Merkimiðar þeir sem fylgja eiga tækjum verða allir með sama sniði á hinu Evrópska efnahagssvæði. Birgðasalar skulu láta þessar upplýsingar í té, en í því felst m.a. að þeir þurfa að sjá um þýðingu og prentun upplýsinganna á sinn kostnað.
    Nánari reglur um upplýsingaskyldu verða settar í reglugerð samkvæmt heimild í 8. gr. laganna.
    

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 5. gr.

    1. mgr. þarfnast ekki skýringa.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að bannaðar séu merkingar um orkunotkun o.fl. sem samræmast ekki ákvæðum laganna. Þessu ákvæði er fyrst og fremst ætlað að koma í veg fyrir að upplýsingar sé að finna á tækjum sem geta villt um fyrir neytendum.
    

Um 6. gr.

    Með þessu ákvæði er ráðherra veitt heimild til að framselja vald sitt til eftirlits. Verði sú raunin mun nánar vera kveðið á um eftirlit og framkvæmd þess í reglugerð.
    

Um 7. gr.


    Samkvæmt greininni getur sá aðili sem fer með eftirlit með því að fylgt sé reglum sem settar verða á grundvelli laganna krafist nauðsynlegra upplýsinga og tekið eintak af tæki eða búnaði til skoðunar, t.d. til að mæla orkunotkun þess, enda sé ástæða til að ætla að upplýsingar séu ekki réttar. Skoðun og mæling getur farið fram hjá aðilum sem eftirlitsaðilar ákveða enda teljist þeir fullnægja þeim kröfum sem til slíkra aðila verða gerðar.
    

Um 8. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. er ráðherra skylt að setja reglugerð um framkvæmd laganna. Gera má ráð fyrir að sett verði sérstök reglugerð um hvern flokk tækja og búnaðar eins og greint er frá í athugasemd við 2. gr., auk almennrar reglugerðar um framkvæmd laganna.
    Í 2. mgr. er ráðherra veitt heimild til þess að leggja kostnað af eftirliti á birgðasala.
    Samkvæmt 3. mgr. getur ráðherra sett reglur um hvert megi áfrýja ákvörðunum eftirlitsaðila. Hann getur t.d. ákveðið að skipa nefnd til að fjalla um kærur og að úrskurði nefndarinnar verði ekki unnt að kæra til ráðherra.
    

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um merkingar

og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja.

    Tilgangur væntanlegra laga er að stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun heimilistækja og annars er varðar rekstur þeirra. Þessu markmiði er áformað að ná með því að neytendum verði látnar í té upplýsingar varðandi orkunotkun og orkunýtni tækja og búnaðar sem eru seld eða leigð. Þessar upplýsingar ber að finna á merkimiðum er tengjast tækjum á sérstökum upplýsingablöðum og skulu þau fylgja öllum kynningarritum fyrir vörurnar. Skylt er að vekja athygli neytenda á þessum upplýsingum.
    Að því er kostnað varðar er rétt að vekja athygli á ákvæði í frumvarpinu þess efnis að iðnaðarráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að birgðasali (framleiðandi, fulltrúi hans eða sá er markaðssetur vöru) skuli bera kostnað af eftirliti og skoðun og setja sérstaka gjaldskrá er það varðar. Gera verður ráð fyrir að þessi heimild verði nýtt og leiðir þetta ákvæði laganna þá ekki til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Einhverri ríkisstofnun verður að öllum líkindum falið að taka við kvörtunum frá neytendum verði þeir varir við að ákvæðum laganna sé ekki framfylgt. Leiðir það væntanlega til einhvers álags og aukins kostnaðar hjá viðkomandi stofnun. Á þessi stigi er hins vegar ekki unnt að meta þennan viðbótarkostnað.